1. Tillaga um Ólaf Níels #14 sem fundarstjóra og Unni Sveins #57 sem ritara, tillaga samþykkt og fundur settur, mættir kynna sig.
2. Högni #12 flytur skýrslu stjórnar fyrir liðið ár. Rætt meðal annars um kosningu um merki fyrir klúbbinn, framleiðslu á vörum merktum klúbbnum og félagsskírteini sem jafnframt er afsláttarkort hjá Shell. Það veitir 7 króna afslátt á lítrann plús 1 króna af hverjum lítra rennur til klúbbsins.
3. Gjaldkeri Einar #8 lagði fram endurskoðaðaða reikninga sl. Árs, staðan á reikningi er rúmlega 177.000 krónur og helstu útgjaldaliðir liðins árs voru félagsmerkin rúmlega 93.000, leiga á sal fyrir síðasta aðalfund og auglýsingar vegna fundarins. 38 hafa nú þegar greitt félagsgjöld fyrir 2009. Félagsmenn eru 63.
4. Lagabreytingar skv. 13. grein laga klúbbsins voru engar.
5. Kosning stjórnar, varamanna og skoðunarmanna skv. 12. grein klúbbsins. Sitjandi stjórn hvött til að vera áfram. Högni stakk upp á Óskari #59, Kára #54 og Gunnari Pétri #37 en Kári gaf ekki kost á sér. Niðurstaða varð að í stjórn voru kjörnir Högni #12, Einar #8, Níels #36, Smári #29 og Óskar #59. Gunnar #37 og Björn Starri #27 voru kjörnir varamenn. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Hlífar #4 og Ólöf #61.
6. Kosning í nefndir. Umræður um nefndirnar; viðburðanefnd og umferðaröryggisnefnd og hvernig þær hefðu starfað. Síðasta ár voru þær óvirkar að mestu. Hlífar leggur til skýrari vinnubrögð þegar kemur að viðburðum og hópakstri og hvetur til meiri aga í hópakstri. Nokkur umræða um þetta og sýnist sitt hverjum og menn ekki sammála um hvað sé hópakstur og hvað sé hittingur. Lagt er til að umferðaröryggisnefndin skilgreini hvað er hópakstur og hvað ekki. Örn talaði um að úthluta nefndunum ákveðnu fjárframlagi til að spila úr en stjórnin lagði til að nefndirnar myndu frekar sækja um peninga ef þær teldu þörf á þeim vegna ákveðinna viðburða. Kári hvatti til að allir félagsmenn verði duglegir að hafa samband við Vegagerðina og biðja um að vegir séu lagfærðir og sópaðir. Hlífar #4, Örn #3 og Grétar #1 kosnir í umferðaröryggisnefnd. Högni hvatti til að fleiri hittingar en miðvikudagshittingurinn verði skipulagðir í hverri viku. Óli Níels #14, Úlfar #52 og Malla #60 kosin í viðburðanefnd og eru miklar væntingar gerðar til nefndarinnar. Högni brýndi Drekana til að halda Landsmót bifhjólafólks 2010 eða 2011.
7. Önnur mál.
Stjórnin fól tveim félögum klúbbsins, Herði #47og Þórunni #46 að setja upp og halda utanum heimasíðu fyrir klúbbinn og vinna það í samráði við stjórn. Umræður um heimasíðu vs. Fésbók og þörf á heimasíðu yfir höfuð. Reiknað er með að auglýsingatekjur muni standa undir rekstrarkostnaði en kostnaður við heimasíðugerð gæti verið á bilinu 40 80.000. Hörður og Þórunn eru tilbúin að taka þetta að sér. Samþykkt með einu mótatkvæði.
Fundurinn leggur til að stofnuð verði kennitala fyrir klúbbinn. Samþykkt samhljóða.
Einar kynnti lauslega Færeyjaferð 11-18 júni næstkomandi og fær nöfn þeirra sem hafa hug á að koma með. Kostnaður við ferðina var ekki ljós ennþá en tilboð hljóðaði upp á rúm 40.000 fyrir 1 mann og hjól og ca. 58.000 fyrir 2 menn og hjól. Ferðin er að mestu óskipulögð ennþá en Högni er að setja sig í samband við 3 klúbba Færeyska enda séu þeir okkar næstu nágrannaklúbbar á eftir Náttförum og Einar er að kanna með húsnæði í Þórshöfn sem getur hýst allt að 20 manns.
Hlífar lagði til að fenginn verði ökukennari til að leiðbeina fólki með hópakstur nú í byrjun sumars og vísaði til þess að það væri ekki óalgengt meðal bifhjólaklúbba.
Heiðar kynnti nýjan klúbb Goða - sem ætlunin er að starfi á Héraði og Seyðisfirði. Stofnfélagar voru 6 en klúbburinn telur nú 24 meðlimi og tekur ekki við fleirum. Goðarnir stefna að því að koma sér upp félagsaðstöðu á svæðinu, eru að láta sauma stór bakmerki og taka undir fyrri tillögu um að standa fyrir einum hittingi í viku á móti Drekahittingnum. Þeir lýsa yfir einlægum vilja til góðra samskipta við Drekana enda eru margir félagar í báðum klúbbunum. Heiðar er allsherjargoði og með félagsmerki númer 1. Drekar fögnuðu Goðunum með klappi.
Óskar og Malla hvöttu til aukinnar notkunar endurskinsvesta enda þyrfti bifhjólafólk að sjást betur. Þau stungu upp á að Drekamerkið yrði saumað í vestin til að gera þau meira aðlaðandi.
Fyrsti hjólahittingur var ákveðinn 22. Apríl á Pósthúsplaninu á Reyðarfirði.
Fundi slitið.
Flokkur: Vísindi og fræði | 23.4.2009 | 17:36 | Facebook
Athugasemdir
Ætlið þið ekki að hittast á morgun, miðvikudaginn 29. ?
Bara aðeins að ýta við ykkur og segi bara góða ferð.
Malla #60 hnakkskraut. (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 17:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.